Gyðjur, Háskólabíó salur 1

Markmið smiðjunnar er að leysa úr læðingi sönggyðjuna sem býr innra með okkur öllum. Unnið verður með tónlist stórkostlegra tónlistarkvenna: Kate Bush, Röggu Gísla, Arethu Franklin og Carole King. Lögð verður sérstök áhersla á hispurslausa túlkun í söng og framkomu. Við ætlum allar að skína í gegnum tónlistina, syngja af tilfinningu, krafti og einlægni.

Lilja Dögg

Lilja Dögg Gunnarsdóttir mezzósópran lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík árið 2010 undir handleiðslu Elísabetar F. Eiríksdóttur og meistaraprófi frá LHÍ í Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi. Hún starfar við kórstjórn og söng og kemur reglulega fram sem einsöngvari í ýmsum verkum en hún er t.d. aðalsöngkona í Umbru sem sérhæfir sig í fornri tónlist í eigin útsetningum og hefur gefið út þrjár plötur. Dæmi um nýleg verkefni eru einnig einsöngsaríur Lucreziu Vizzana með Reykjavík Barokk.
Lilja Dögg er virk í kórastarfi og ásamt því að vera meðlimur í sönghópnum Cantoque syngur hún í Scola Cantorum og hefur starfað við útfararsöng síðastliðin ár. Hún stjórnar, ásamt Hildigunni Einarsdóttur, Kvennakórnum Kötlu sem hefur getið sér gott orð að undanförnu. Þá stýrir hún Mánakórnum og kór Kvennaskólans í Reykjavík. Einnig starfar hún við raddþjálfun, upptökutengd söngverkefni, stjórnar tónlistarsmiðjum og útsetur kórtónlist.