Söngur og hreyfing, Háskólabíó salur 2

Í smiðjunni verða tekin fyrir tvö lög sem túlkuð eru bæði með söng og hreyfingu.

Viva La Vida:
Í laginu Viva La Vida skulum við svo sannarlega Lifa lífinu!!!
Léttar hreyfingar við lagið verða æfðar á landsmótinu sem gefa ennþá meira „búst“ fyrir þetta kraftmikla lag. Það er nauðsynlegt að kunna lagið utanbókar þegar er mætt í smiðju því við ætlum að nota hendurnar í annað en að halda nótum 

Adiemus:
Textinn sjálfur hefur enga merkingu, svo þið þurfið ekkert að spá í um hvað þið syngið. En söngurinn er blanda af afrískum og keltneskum laglínum svo lagið verður sungið með tilliti til þess. Það þarf að kunna lagið utanbókar þegar er mætt í smiðju því
lagið verður flutt með hreyfingum og mun því án efa hafa augnabliks áhrif á hlustandann.

Ég hlakka til að hitta ykkur!

Ágota

Ágota Joó er fædd í Ungverjalandi. Hún hóf píanónám 7 ára, gekk svo í Listamenntaskóla á píanóbraut. Hún útskrifaðist frá Franz Liszt Tónlistarháskólanum í Szeged, sem píanókennari, tónfræðikennari og kórstjóri. Hún flutti til Íslands árið 1988 og hóf kennslu við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Árið 1991 flutti hún til Njarðvíkur og kenndi á píanó við Tónlistarskóla Njarðvíkur. Hún var kórstjóri Kvennakórs Suðurnesja í nokkur ár og undirleikari Karlakórs Keflavíkur í mörg ár og lék m.a. inn á tvo diska með þeim. Ágota hefur stjórnað Senjórítukórnum frá 2006, Kvennakór Reykjavíkur frá 2010 og er einnig kórstjóri Kórs Átthagafélags Strandamanna. Ágota er einn af stofnendum Tónskólans Do Re Mi, hefur kennt við hann frá árinu 2003 og er nú deildarstjóri við skólann.

Undirleikari

Aladár

Aladár Rácz píanóleikari er fæddur í Rúmeníu árið 1967. Hann stundaði fyrst nám í píanóleik við Georges Enescu tónlistarskólann í Búkarest en síðan framhaldsnám við Tónlistarháskólana í Búkarest og Búdapest. Hann hefur leikið á tónleikum víðsvegar um heiminn, leikið inn á geisladiska og unnið til verðlauna fyrir píanóleik í alþjóðakeppnum. Á árunum 1999-2013 starfaði Aladár sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Húsavíkur og lék með ýmsum kórum og söngvurum á Norður- og Austurlandi. Hann var einnig um tíma meðleikari framhaldsnemenda við Tónlistarskólann á Akureyri. Aladár hefur haldið nokkra einleikstónleika í Salnum í Kópavogi og hefur m.a. verið einleikari með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í píanókonserti nr.1 eftir Ludwig van Beethoven og í píanókonserti nr.1 eftir Johannes Brahms. Aladár hefur verið búsettur á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2013 og kennir við Tónlistarskólann Do Re Mi, Söngskóla Sigurðar Demetz ásamt því að sinna meðleik í Listaháskólanum.