Í kór

Höfundur texta
Álfheiður Ingólfsdóttir

Álfheiður fæddist árið 1968 í Reykjavík en ólst upp á Höfn í Hornafirði. Unglingsárunum eyddi hún austur á Egilsstöðum eftir að fjölskyldan flutti búferlum þangað. Álfheiður fór í Kennaraháskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist sem grunnskólakennari. Álfheiður hefur alltaf haft gaman af tónlist og lagði stund á tónlistarnám á sínum yngri árum. Íslenskan hefur að sama skapi heillað Álfheiði alla tíð þó ekki hafi hún mikið gert af því að skrifa lagatexta. Textinn „Í kór” er fyrsti textinn sem Álfheiður skrifaði fyrir Kvennakór Reykjavíkur en þó nokkrir hafa bæst við í kjölfarið.

Textinn „Í kór” fjallar um hvað það hefur í för með sér að syngja og vera í kór. Við sem það þekkjum vitum að það er heilmikill ávinningur af slíku og það er alltaf gott að hitta aðra og syngja með þeim. Söngnum fylgir gleði ásamt því að hafa góð áhrif á hjartað og andlega líðan. Já, ávinningur verður stór, ef ert´ í kór!

Höfundur lags
Herman Hupfeld

Herman Hupfeld fæddist í New Jersey í Bandaríkjunum árið 1894. Eftir að hafa sinnt herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni sneri hann sér að lagasmíðum. Lag Hermans sem við flytjum hér heitir á frummálinu “As time goes by” og er þekkt úr myndinni “Casablanca” frá árinu 1942 og margir sem hafa séð myndina muna sjálfsagt eftir því þegar Ingrid Bergman segir við píanóleikarann “Play it Sam. Play ‘As time goes by”. Upphaflega var lagið þó skrifað fyrir Broadway söngleikinn “Everybody’s Welcome” sem var sýndur snemma á fjórða áratug síðustu aldar.  Herman samdi mörg lög fyrir revíur og söngleiki og flutti sum þeirra sjálfur á Broadway, spilaði á píanó og söng. Á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar skemmti Herman hermönnum og á sjúkrahúsum. 

Herman Hupfeld lést árið 1951 eftir heilablóðfall, 57 ára að aldri. 

Undirleik annast

Aladár Rácz á píanó,
Árni Jökull Guðbjartsson á slagverk,
Hávarður Tryggvason á kontrabassa