Velkomnar!

Kveðja frá Kvennakór Reykjavíkur

Það er okkur í Kvennakór Reykjavíkur einstakur heiður að bjóða ykkur allar hjartanlega velkomnar til syngjandi vors, á landsmót okkar allra.

Óhætt er að segja að leiðin að þessu 11. landsmóti Gígjunnar, landssambandi íslenskra kvennakóra hafi verið löng með allnokkrum brekkum á leiðinni. Á landsmóti á Ísafirði í maí 2017 var Kvennakór Reykjavíkur falið af Gígjunni að annast um næsta landsmót sem haldið skyldi vorið 2020. Af stað fórum við þá þegar og hófum undirbúning að landsmóti í höfuðborginni sem skyldi einkennast af gleði og syngjandi vori.

Skráning á mótið var vel á veg komin snemma árs 2019 og allur undirbúningur í hámarki fyrir glæsilegt mót vorið 2020. En svo skall á heimsfaraldur og í stuttu máli hefur þessu langþráða landsmóti verið frestað tvisvar sinnum.

Því miður virðast nokkrir kvennakórar hafa helst úr lestinni á tímum heimfaraldurs en vonandi fjölgar þeim aftur enda augljóst að konum er almennt mál að syngja og vita að í sönginn má sækja félagsskap, áskoranir, kraft, gleði og umfram allt ánægju.

Nú er langþráð landsmót orðið að veruleika og áfram er það gleðin og syngjandi vor sem verður aðalsmerki þess, þar sem á fimmta hundrað kórkonur frá öllum landshornum njóta samveru og söngs. Við leggjum undir okkur helstu tónleikahús höfuðborgarinnar og nær mótið hámarki með glæsilegum tónleikum allra kóranna í Eldborgarsal Hörpu.

Kvennakór Reykjavíkur fagnar 30 ára afmæli á þessu ári og það er okkur sérstök ánægja að bjóða ykkur til þessarar samverustundar í höfuðborginni á afmælisári okkar. Afmælinu hyggjumst við fagna með stórtónleikum á haustdögum, líta yfir farinn veg í 30 ára sögu kórsins og minna okkur um leið á að ávinningur verður stór ef ert’ í kór.

Rósa Kristín Benediktsdóttir

formaður landsmótsnefndar Kvennakórs Reykjavíkur

Svanhildur Sverrisdóttir

formaður Kvennakórs Reykjavíkur

Landsmótsnefnd Kvennakórs Reykjavíkur:

Frá vinstri

Kolbrún Halldórsdóttir, Mist Elíasdóttir, Svanhildur Sverrisdóttir, Björg Steinarsdóttir, Alma Ósk Melsteð, Álfheiður Ingólfsdóttir og
Rósa Kristín Benediktsdóttir formaður.

Á myndina vantar Soffíu Þorsteinsdóttur.

Kveðja frá Gígjunni,
landssambandi íslenskra kvennakóra

Kolbrún Halldórsdóttir

formaður Gígjunnar

Á tuttugasta afmælisári Gígjunnar er ellefta landsmót íslenskra kvennakóra haldið í Reykjavík

Gígjan, landssamband íslenskra kvennakóra var stofnuð 5. apríl 2003. Fulltrúar sautján kvennakóra alls staðar af landinu sátu stofnfundinn.  Í dag, 20  árum seinna eru kórar sambandsins um 25, þar af er elsti kvennakór landsins Kvennakór Suðurnesja sem var stofnaður 1968 og hugsanlega sá yngsti Kvennakór Vestmannaeyja stofnaður 2020 en báðir kórarnir taka þátt í mótinu í ár.

Fyrsta landsmót kvennakóra var haldið af Kvennakórnum Lissý í Ýdölum árið 1992 og mættu þangað allir kvennakórar landsins, fimm talsins. Síðan þá hafa landsmót verið haldin út um allt land, ýmist á tveggja eða þriggja ára fresti – undantekningin er mótið í ár en 6 ár eru liðin frá síðasta landsmóti á Ísafirði og allar vitum við ástæðuna fyrir því. Kvennakór Reykjavíkur er fyrsti kórinn til að halda landsmót í annað sinn, en kórinn hélt einnig landsmót í Reykjavík árið 1995.

Á landsmótum Gígjunnar hittast kórkonur hvaðanæva af landinu með það að markmiði að syngja saman, syngja fyrir aðra kóra, hlusta á aðra kóra, læra eitthvað nýtt og mögulega fara aðeins út fyrir þægindaramman með þátttöku í smiðjum ásamt kórkonum úr öðrum kórum og undir stjórn annarra kórstjóra. Allt þetta nær svo hámarki þegar kórkonur upplifa þá valdeflingu sem felst í því að æfa sameiginlegu lögin í mörg hundruð kvenna hópi og flytja svo afraksturinn á lokatónleikum mótsins.

Ekki má svo gleyma samverustundunum á kvöldin þar sem kórkonur skála gjarnan fyrir góðum degi og góðum tónleikum og binda svo endahnútinn á frábæra samveru á lokahófi þar sem hundruð kvenna skemmta sér saman yfir mat og drykk.

Allt þetta gerir landsmót Gígjunnar, landssambands íslenskra kvennakóra að einstakri upplifun. Kvennakrafturinn, systralagið, gleðin og söngurinn.

Góða skemmtun kæru söngsystur, ég hlakka til að hitta ykkur allar.

Umferðarstjóri landsmóts
Margrét Bóasdóttir 

Margrét Bóasdóttir stóð, ásamt kvennakórnum Lissý í Þingeyjarsýslu, fyrir fyrsta landsmóti kvennakóra sem haldið var vorið 1992 í Ýdölum í Aðaldal. Þar mættu allir starfandi kvennakórar landsins, alls 5 og var fjöldi kórkvenna um 150 talsins. Hún fór fyrir starfshópi sem vann að stofnun landssambands íslenskra kvennakóra, Gígjunnar, árið 2003 en í ár er 20 ára afmæli sambandsins.
Margrét hefur verið mótsstjóri á öllum landsmótum utan tveimur og hefur stjórn Gígjunnar veitt henni titilinn „Verndari Gígjunnar” sem merkir að stjórn getur leitað til hennar með ráðleggingar og hin ýmsustu mál. Margrét er menntuð söngkona og kórstjóri ásamt því að hafa MBA próf í viðskiptum frá Háskóla Íslands. Hún starfar sem söngmálastjóri þjóðkirkjunnar.

Silja Aðalsteinsdóttir

Ávarp á Landsmóti íslenskra kvennakóra 4. maí 2023
í Hallgrímskirkju

Kæru söngsystur, það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur á þessum hátíðisdegi.

„Veröldin er saungur, en við vitum ekki hvort hún er góður saungur, af því við höfum ekki annað til samanburðar.  Sumir halda að saunglistin eigi uppruna sinn í þyti sólkerfanna þegar þau bruna um geiminn …“ Þetta hugsar Álfgrímur í Brekkukoti í Brekkukotsannál Halldórs Laxness og það er sannarlega æðislegt að ímynda sér að við syngjum í kapp við sólkerfin þegar við þenjum raddböndin – að þau séu hinn fyrsti upprunalegi „kór“.

Nú komum við saman mörg hundruð konur sem ætlum að syngja í kapp við sólkerfin næstu daga og því er upplagt að rifja upp rök kórstýrunnar Sigríðar fyrir „kvennatónlist“ í skáldsögunni Þetta er allt að koma eftir Hallgrím Helgason. Þetta eru einföld rök en kannski dálítið einsýn líka: „Rétt eins og móðurmálið er sönglistin upprunnin úr móðurbarmi,“ segir Sigríður, „móðurmjólkinni fylgir hin raulandi barnagæla, barnið drekkur í sig rödd móður sinnar og hver söngrödd er því í eðli sínu af kvenlegum toga (sbr. tónlist-in, rödd-in, nóturn-ar, tónlistargyðj-an). Mjólk úr konubrjósti vætir kverkar og vökvar þau raddbönd er síðar blómstra og bera ávöxt hins sanna tóns. Þessarar mjólkurraddar njóta allir, en stúlknaraddir verða þó hreinræktaðri. „Móðurrödd“ þeirra helst upprunaleg, þær fara ekki í mútur. Og þar sem góður kór er í raun ein fjölsprottin sam-rödd; þykkur trjástofn ofinn úr óteljandi rótum sem draga honum næringu úr móður jörð, þá er æskilegra að uppsprettur hennar sé að finna í þeim brjóstum sem fyllt eru frumsafa sönglistarinnar.“

Þetta sagði Sigríður kórstýra en kórsöngur er ekki bara kvenlegur, hann er líka meinhollur. Á vefsíðunni hjartalíf.is kemur fram að samkvæmt vísindalegum rannsóknum samlagist hjartsláttur söngvaranna þegar sungið er saman sem einn maður. Þessi samstilling er holl fyrir hjartað og framkallar góðar tilfinningar hjá söngvurum og áheyrendum. Söngvar með löngum laglínum hafa sömu áhrif og öndunaræfingar í jóga. Með því að syngja í kór getum við því lært að stjórna andlegu og líkamlegu ástandi okkar að talsverðu leyti.

Raunar þarf ekki að leita í erlendar rannsóknir að rökum fyrir því að syngja í kór. Annar textinn sem við syngjum allar saman á þessu Landsmóti telur samviskusamlega og hávísindalega upp allt sem við græðum á því: Söngurinn kveikir gleðibál í hjartanu, hann lífgar anda okkar og sál, og ef við tölum um kórsöng sérstaklega þá fjölgar hann vinum og eflir vináttu. Kórinn minn, Senjórítukórinn, er skipaður konum á eftirlaunaaldri og þegar þar er komið á ævibrautinni endurnýjum við yfirleitt ekki vinahópinn eða bætum í hann. Frekar að það fækki duglega í honum eftir því sem árunum fjölgar. En í kórnum mínum eru að jafnaði um það bil sextíu konur og mér finnst ég geta kallað þær allar vinkonur mínar þó að sumar þekki ég vissulega betur en aðrar. Samverustundir okkar – vikulegu æfingarnar með eftirlætinu okkar, stjórnandanum Ágotu Joó, mánaðarlegu kaffifundirnir sem hún Sigurlaug snillingur stofnaði til eftir faraldurinn, ferðalögin vor og haust, aðalfundurinn með árshátíðinni, og þó einkum æfingabúðirnar sem við höfum haldið í Borgarnesi undanfarin ár – þessar samverustundir eru alveg einstaklega gefandi og skemmtilegar. Þar er ekki fýlan eða óánægjan, þusið eða þrefið, enda löngu sannað mál að það er ekki hægt að vera fúll og syngja á sama tíma.

Hugurinn verður frjór af því að syngja, fullyrðir Álfheiður Ingólfsdóttir í textanum sínum, það sannreyndi ég sjálf eftir að ég byrjaði í Senjórítukórnum. Ég var þá nýorðin sjötug og löngu hætt að geta lært texta utanbókar – enda aldrei verið í kór og ekki látið reyna á þá hæfileika áratugum saman. En mér til mikillar furðu lét þessi hæfileiki smám saman á sér kræla aftur í kórstarfinu. Mér tókst ekki einungis að læra fáránlegar útgáfur af lögum sem ég nauðaþekkti af því að ég lenti í altinum sem söng þau oftast allt öðruvísi, heldur efldist getan til að læra texta utanað. Þetta gladdi mig satt að segja meira en ég get lýst. En vissulega er þægilegra að læra texta í samhengi en stök orð innan úr eins og stundum ber við í lærðum útsetningum.

Enn mætti bæta við að kórsöngur getur slegið á sársauka og verki, hann bætir ónæmiskerfið, dregur úr streitu og þunglyndi. Ein vönduð rannsókn leiddi í ljós að fólk sem söng í kór var einfaldlega hamingjusamara en annað fólk!

Já, ávinningur verður stór ef ertu í kór, fullyrðir Álfheiður, og ég tek undir það. Við eigum dýrlega daga í vændum með söng frá morgni til kvölds í kappi við sólkerfin. Og ég lýk máli mínu á ljóðinu hennar Ólafar frá Hlöðum, Til gleðinnar, sem er hitt sameiginlega lagið á Kóramótinu og gefur því nafnið sitt, „Syngjandi vor“:

Til gleðinnar

Hve elska ég þig, gleði, með geislana þína,
- án gleði er ég aumlega stödd -
þá sólbros þitt skín inn í sálina mína,
þar syngur hver einasta rödd.

Þú opnar það besta, sem eðli mitt geymir
og uppljómar dimmustu göng,
svo ljósið og hitinn að hjarta mér streymir,
og hugurinn fyllist af söng.

Og þá vil ég öllu því lifandi líkna
og lofa því gleðina sjá.
Allt mannkyn þá vil ég af misgjörðum sýkna
og mildinni konungdóm fá.

Því elska ég þig, gleði, með andlitið bjarta
sem áhugann kveikir og þor
Þinn bústað sem oftast mér hafðu í hjarta,
þú, huga míns syngjandi vor.