Senjórítukórinn

  • Senjórítukórinn var stofnaður sem deild innan Kvennakórs Reykjavíkur árið 1995. Tilgangurinn var að gefa áhugasömum eldri konum tækifæri til að halda áfram að syngja eftir sextugt en yfirleitt er ekki óskað eftir þátttöku kvenna sem komnar eru á efri ár í almennum kórum. Stofnfélagar voru 18 en nú eru félagar 65 og kórinn orðinn sjálfstæður.
    Kórinn æfir einu sinni í viku yfir vetrartímann og heldur eina tónleika á ári, Fyrir heimsfaraldurinn sungum við jólalög fyrir vistmenn hjúkrunarheimila og félagsmiðstöðva í desember og vonumst til að geta tekið þann sið upp aftur næsta vetur. Að jafnaði förum við í eitt ferðalag á ári. Árið 2016 fór kórinn í tónleikaferðalag til Færeyja, það var fyrsta utanlandsferð kórsins og tókst hún með ágætum. Senjórítur hafa tekið þátt í landsmótum kvennakóra nokkrum sinnum.
    Af minnisstæðum tónleikum kórsins má nefna að í október 2016 sungum við með Ragnari Bjarnasyni – Ragga Bjarna – við frábærar undirtektir. Þeir tónleikar voru einnig haldnir á Selfossi og í Njarðvík. Í janúar 2020 hélt kórinn tónleika með Braga Valdimar Skúlasyni og tókust þeir líka skínandi vel. Þar frumfluttum við lag eftir Braga Valdimar. Tónleikar með Bubba Morthens voru lengi í undirbúningi vegna Covid-19 sem sífellt setti strik í reikninginn. Þeir voru loks haldnir rétt fyrir páska 2022 og voru kórsystrum ógleymanleg upplifun.
    Kórkonur eru aldrinum sextíu til rúmlega níutíu ára og hafa margar starfað lengi með öðrum kórum. Áhugi og sönggleði kórkvenna er með ólíkindum og mæting á æfingar mjög góð. Kórstjóri er Ágota Joó og maður hennar Vilberg Viggóson hefur annast undirleik og séð um útsetningar fyrir kórinn ásamt Ágotu. Á tónleikum leikur jafnan hljómsveit með kórnum undir stjórn Vilbergs.
    Formaður kórsins er Silja Aðalsteinsdóttir.