Harpa

Syngjandi vor
tónleikar í Eldborg

Eftir óvenju harðan og kaldan vetur verður ljúft að syngja inn vorið í Elborgarsal Hörpu.  Eldborg skapar þá glæsilegustu umgjörð fyrir tónleika sem völ er á og er það okkur mikill heiður að geta boðið þátttökukórum slíkt tækifæri. Kórarnir flytja eigin dagskrá og fá til þess mjög afmarkaðan tíma sem mikilvægt er að sé virtur. Kórar munu sitja í fyrirfram ákveðnum sætum í sal og koma á svið eftir ákveðinni röð. Hjálpumst að við að selja miða á tónleikana því það er miklu skemmtilegra að syngja fyrir fullan sal af fólki.  Athugið að miðar á tónleikana „Syngjandi vor“ gilda einnig á tónleika smiðjanna sem fara fram í Háskólabíói daginn eftir.

Miðasala er á tix.is og í Hörpu og verður sérstakt tilboð í apríl.

Að tónleikunum loknum verður þátttakendum boðið upp á smárétti í Hörpuhorni undir léttri jazzsveiflu. Athugið að sýna þarf mótsarmband til að komast í Hörphornið.

Aðstaða til að geyma töskur og yfirhafnir verður í svokallaðri „pizzusneið“ sem er lokað rými á þriðju hæð Hörpu.

Um Hörpu

Tónlistar og ráðstefnuhúsið Harpa er margverðlaunað og var meðal annars valið eitt af bestu tónlistarhúsum nýs árþúsunds ári 2010 og eitt besta ráðstefnuhús Evrópu haustið 2016. Nýlega var svo Eldborg verðlaunuð fyrir framúrskarandi hljómburð og þykir standa vel undir nafni sem tónleikasalur á heimsmælikvarða.

Harpa er heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar og Stórsveitar Reykjavíkur, sem halda reglulega tónleika í Hörpu allt árið um kring. Harpa er eitt helsta kennileiti Reykjavíkur og er miðstöð menningar og mannlífs í hjarta miðborgarinnar.