Kvennakórinn Ljósbrá

  • Kvennakórinn Ljósbrá var stofnaður haustið 1989 og er því með elstu starfandi kvennakórum landsins. Stofnendur kórsins voru Guðríður Jónsdóttir, Margrét Runólfsson og Elín Jónsdóttir, allar búsettar í Rangárvallasýslu. Núverandi stjórnandi kórsins er Ingibjörg Erlingsdóttir og hefur hún stjórnað kórnum frá árinu 2018. Í Kvennakórnum Ljósbrá starfa að jafnaði 40-45 konur.
    Markmið kvennakórsins Ljósbrár er að fá konur til að koma saman og syngja sér til ánægju sem fjölbreyttasta tónlist, koma fram og syngja við hin ýmsu tækifæri, vera okkur til sóma þar sem komið er fram í nafni kórsins, vinna stöðugt að framförum og hafa metnað ávallt í fyrirrúmi.
    Kórinn heldur að öllu jöfnu tvenna vortónleika. Þar að auki tekur kórinn alltaf þátt í sameiginlegum aðventutónleikum kóranna í Rangárvallasýslu. Vorið 2006 fór kórinn til Austurríkis í sína fyrstu utanlandsferð og árið 2016 fór kórinn til Spánar og hélt þar tvenna tónleika.
    Kórinn hlaut Menningarverðlaun Sunnlenska fréttablaðsins og Töðugjalda haustið 2006.
    Haustið 2009 gaf kórinn út geisladiskinn Fljóðaljóð í tilefni 20 ára starfsafmælis. Haustið 2017 tók kórinn þátt í keppninni Kórar Íslands á Stöð 2.