Kvennakórinn Ymur

  • Kvennakórinn Ymur var stofnaður fyrir 28 árum. Í upphafi var hann aðallega skipaður grunnskólakennurum í Grundaskóla á Akranesi. Nafnið Ymur hefur verið skilgreint þannig: dimmt hljóð, niður eða ómur. Fjöldi kórfélaga hefur verið mjög mismunandi allt frá 12 og upp í 60. Við erum 25 í dag, konur á öllum aldri, úr hinum ýmsu starfsgreinum þjóðfélagsins. Kórstjórar eru þrír frá upphafi: Dóra Líndal (1995-2001), Elfa Ingvadóttir (2001-2005) og Sigríður Elliðadóttir frá 2005.
    Ymur hefur ferðast til landa eins og Færeyja, Póllands, Danmerkur, Skotlands, Hollands, Ítalíu og Írlands. Kórinn er ekki með neinar fastar tekjur svo við fjármögnum þessar ferðir sjálfar. Við höfum dreift pósti, bakað, séð um þrif, haldið tónleika, bingó og einnig selt ýmsar vörur. Við höldum tónleika að jafnaði minnst tvisvar á ári, jólatónleika og vortónleika. Við höfum einnig haldið tónleika með öðrum kórum og tekið þátt í kóramótum innanlands, landsmótum Gígjunnar og einnig Nordic Baltic sem haldið var í Laugardalshöllinni fyrir nokkrum árum.
    Kórkonurnar okkar eru samtaka í að syngja ýmis konar lög, bæði innlend og erlend í góðum félagsskap. Tónlistin er blanda af klassískum, þjóðlegum lögum og poppi.