Til gleðinnar

Höfundur texta

Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum

Ólöf Sigurðardóttir fæddist árið 1857 á Vatnsnesi þar sem hún ólst upp, næstyngst í 16 systkina hópi, við mikla fátækt. Ólöf lærði til ljósmóður í Reykjavík og fór svo í frekara nám í þeim fræðum til Kaupmannahafnar. Að því loknu starfaði hún sem ljósmóðir í Reykjavík en eftir að hún veiktist af berklum flutti hún ásamt eiginmanni sínum norður í Hörgárdal þar sem þau hófu búskap á Hlöðum. Ólöf var að mörgu leyti sjálfstæð kona sem birtist m.a. í því að þau hjónin höfðu hvort sitt herbergi og stofu auk þess sem þau höfðu aðskilinn fjárhag. 

Tvær ljóðabækur voru gefnar út með ljóðum Ólafar en einnig birtust smásögur eftir hana í tímaritum. 

Eitt helsta yrkisefni Ólafar var ástin og þá oftar en ekki ófullnægð ást  en þar spilar án efa inn í að hún hafði sjálf upplifað ófullnægða ást og vonbrigðin sem hún veldur. Auk þess má finna í ljóðum Ólafar sterka tilhneigingu til að búa við frelsi og vera öðrum óháð.

ÓIöf lést árið 1933, þá 76 ára að aldri.

Segja má að ljóð Ólafar, Til gleðinnar, sem allir kórarnir syngja saman, sé eins konar lofsöngur þar sem gleðinni er sungið lof. Í ljóðinu fer Ólöf yfir það hvað gleðin gefur okkur mannfólkinu og hvernig hún fær hverja einustu rödd sálarinnar til að syngja. Gleðin gefur okkur mildi, hjálpar okkur að fyrirgefa, okkur hlýnar í hjarta og hugurinn vaknar til lífsins og fyllist af söng. 

Til gleðinnar

Hve elska eg þig, gleði, með geislana þína,
- án gleði er eg aumlega stödd -
þá sólbros þitt skín inn í sálina mína,
þar syngur hver einasta rödd.

Og þá vil eg öllu því lifandi líkna
og lofa því gleðina sjá.
Allt mannkyn þá vil eg af misgjörðum sýkna
og mildinni konungdóm fá.

Þú opnar það besta, sem eðli mitt geymir
og uppljómar dimmustu göng,
svo ljósið og hitinn að hjarta mér streymir,
og hugurinn fyllist með söng.

Því elska eg þig, gleði, með andlitið bjarta
sem áhugann kveikir og þor.
Þinn bústað sem oftast mér hafðu í hjarta,
þú, huga míns syngjandi vor.  

Höfundur lags

Gunnsteinn Ólafsson

Gunnsteinn Ólafsson er fæddur á Siglufirði árið 1962 en ólst upp í Kópavogi. Hann hóf nám í tónsmíðum hjá Jóni Ásgeirssyni við Tónlistarskólann í Reykjavík 16 ára að aldri og stofnaði ári síðar kór við Menntaskólann í Kópavogi sem hann stjórnaði í fjögur ár. Gunnsteinn hélt til náms í tónsmíðum við Franz Liszt-tónlistarakademíuna í Búdapest árið 1983 og í hljómsveitarstjórn og tónfræðum við Tónlistarshákólann í Freiburg í Þýskalandi árið 1987 þaðan sem hann lauk námi vorið 1992. Tveimur árum síðar vann hann til verðlauna í keppni ungra norrænna hljómsveitarstjóra í Björgvin í Noregi. Frá því að Gunnsteinn sneri heim til Íslands hefur hann starfað jöfnum höndum sem tónskáld, kór- og hljómsveitarstjóri og kennari við LHÍ og MÍT. Hann hefur samið fjölmörg kór- og einsöngslög og árið 2015 var frumflutt eftir hann og Böðvar Guðmundsson ævintýraóperan Baldursbrá í Norðurljósasal Hörpu. Óperunni var útvarpað á RÚV og hún var tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna. Gunnsteinn stjórnar Háskólakórnum og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Með þeim hefur hann frumflutt ný íslensk verk og nokkur helstu verk tónbókmenntanna sem ekki höfðu heyrst hér á landi áður. Þar á meðal eru óperan Galdraskyttan eftir Weber, óratorían Lobgesang eftir Felix Mendelssohn og Sjávarsinfónían eftir Vaughan-Williams. Gunnsteinn stofnaði Þjóðlagahátíð á Siglufirði árið 2000 og hefur verið listrænn stjórnandi hátíðarinnar allar götur síðan. Hann kom einnig á fót Þjóðlagasetri á Siglufirði árið 2006 og safnaði þjóðlögum fyrir setrið um allt land. Gunnsteinn hefur gefið út barnabækur og skrifað þrjár bækur um náttúru Íslands ásamt Páli Stefánssyni ljósmyndara sem nefnast Hjarta Íslands.

Undirleik annast

Aladár Rácz á píanó