Kvennakórinn Héraðsdætur

  • Kvennakórinn Héraðsdætur er ungur kór sem stofnaður var haustið 2012 á Egilsstöðum af nokkrum áhugasömum konum um söng. Frá stofnun kórsins hafa virkir félagar hans verið um það bil tuttugu talsins, konur á öllum aldri og hafa æfingar verið vikulega yfir vetrartímann. Kórinn hefur haft þrjá stjórnendur frá upphafi, þær Margréti Láru Þórarinsdóttur, eina af stofnendum Héraðsdætra, Kristínu Ragnhildi Sigurðardóttur og Drífu Sigurðardóttur, sem er stjórnandi kórsins í dag.
    Héraðsdætur hafa lagt áherslu á að æfa fjölbreytta tónlist af íslenskum og erlendum uppruna en gjarnan lagt áherslu á létta og fjörlega tónlist sem og lög eftir austfirsk tónskáld. Auk þess að gleyma sér við söng og njóta samverunnar á æfingum einu sinni í viku og við tónleikahald fyrir jól og að vori, hafa Héraðsdætur átt saman ánægjulegar stundir og fundið upp á ýmsum leiðum til að gleðjast saman. Hitt vinakóra í suðri og norðri og sungið saman. Félagar hafa farið saman upp til fjalla, í óvissuferð og gjarnan haldið tónleika utan heimabyggðar að vori. Þá hafa Héraðsdætur sungið árlega í Kvennamessu í Egilsstaðakirkju og farið tvisvar á ári og sungið fyrir aldraða á Hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum.