Háskólabíó

Smiðjur og sameiginlegar æfingar mótslaga verða í Háskólabíói. Einnig verða tvær smiðjur í  Neskirkju sem er í tveggja mínútna göngufæri frá bíóinu.

Við leggjum undir okkur Háskólabíó og skiptum smiðjum niður á sali hússins.  Sameiginlegar æfingar verða í stóra salnum undir stjórn Ágotu Joó og við undirleik Aladár Rácz.  Margrét Bóasdóttir er umferðarstjóri mótsins og stýrir m.a. umferð inn og út af sviði ásamt því að vera kynnir tónleika. Hádegismatur föstudag og laugardag verður borinn fram í anddyri bíósins og hægt verður að kaupa sælgæti og drykki í bíósjoppunni. Tónleikar smiðjanna verða í Háskólabíói kl. 15 á laugardeginum.  Kórar munu sitja í fyrirfram ákveðnum sætum í sal og koma á svið eftir ákveðinni röð.

Um Háskólabíó

Háskólabíó er ráðstefnu- og menningarmiðstöð sem býður upp á fyrsta flokks aðstöðu fyrir ýmiss konar viðburði, ráðstefnur og fundi. Húsið er búið sölum sérsniðnum að fundum og fyrirlestrum með fullkomnu hljóð- og myndkerfi.  Bíóið tók til starfa árið 1961 og var til að byrja með einn salur í húsinu sem var tekið fagnandi af kvikmyndaþyrstum landsmönnum. Árið 1989 var byggt við húsið og fjórir minni salir voru teknir í notkun með samtals 840 sætum. Háskólabíó hefur í gegnum árin verið heimili íslenskra kvikmynda og listrænna gæðamynda frá öllum heimshornum.  Háskólabíó hefur ríka sögu og mikla sál. Gestir upplifa einstakt andrúmsloftið og njóta þess fram í fingurgóma að horfa á góðar kvikmyndir í Háskólabíói. 
Háskólabíó er í nokkurra mínútna göngufæri frá miðborg Reykjavíkur.